top of page
Stack of Magazines

SAMÞYKKTIR

Hér má sjá samþykktir og siðareglur félagsins

Samþykktir
1. gr.

Félagið heitir "Handleiðslufélag Íslands". Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.

2. gr.
Markmið félagsins er:
· Að stuðla að þróun og hagnýtingu handleiðslu í starfi fagstétta.
· Að stuðla að viðhaldi fræðilegrar og verklegrar þekkingar um  handleiðslu með fyrirlestrum og námskeiðum.
· Að kynna handleiðslu sem starfs- og fræðigrein, - kosti hennar
  og gildi í faglegu starfi.
· Að vernda hagsmuni þeirra sem starfa að handleiðslu og stuðla að því að þeir uppfylli fyllstu kröfur um þekkingu
  og siðgæði í starfi.
· Að stuðla að samheldni meðal félagsmanna og samstarfi við sambærileg félög í öðrum löndum.

3. gr.

Félagið er ætlað fagfólki með löggilt starfsréttindi svo sem félagsráðgjöfum, hjúkrunarfræðingum, kennurum, læknum, prestum/guðfræðingum, iðjuþjálfum, sálfræðingum og sjúkraþjálfurum sem hafa lokið til viðbótar viðurkenndu að minnsta kosti 3ja anna námi í handleiðslu. Námið skal bæði ná til fræðilegrar þekkingar og verklegrar þjálfunar.

Umsókn um aðild er fyllt út á heimasíðu félagsins. Fylgigögn með umsókn eru staðfest afrit af prófskírteinum/starfsréttindum. Umsóknir eru lagðar fyrir á stjórnarfundi. Heimilt er að veita nemum í handleiðslu aukaaðild að félaginu. Aukafélagi greiðir lægra félagsgjald og er án atkvæðaréttar.


4. gr.
Stjórn félagsins skipa 5 menn; formaður, varaformaður, ritari, gjaldkeri og 1 meðstjórnandi. Þá skal kjósa 2 varamenn í stjórn.  Formaður skal kjörinn sérstaklega. Stjórnin skal kosin til tveggja ára. Ennfremur skal kjósa 2 skoðunarmenn Stjórn félagsins skiptir með sér verkum.

5.gr.
Stjórn félagsins getur skipað nefndir til að vinna að ákveðnum verkefnum innan félagsins. Meðal fastra nefnda skulu vera;
     1. Siðanefnd, sem fylgist með siðferðilegum kröfum á sviði handleiðslu og tekur fyrir ábendingar, er
         tengjast störfum handleiðara.
     2. Fræðslunefnd, sem skipuleggur árlega  fræðsludagskrá á vegum félagsins.

     3. Gæðanefnd, sem fylgist með þróun gæðamála og heldur utan um gæðaviðmið félagsins.

             
6. gr.

Aðalfundur skal haldinn ár hvert fyrir lok maímánaðar og skal hann boðaður með hálfs mánaðar fyrirvara.
Aðalfundur er löglegur ef löglega er til hans boðað.
Á aðalfundi skal gerð grein fyrir störfum stjórnar og lagðir fram reikningar félagsins undirritaðir af skoðunarmönnum.
Á aðalfundi skal gerð grein fyrir rekstraráætlun næsta starfsárs og kostnaði við hana.
Á aðalfundi skal fara fram stjórnarkjör og kjör annarra embættismanna félagsins.
Á aðalfundi skal ákveða félagsgjöld. Skulu þau taka mið af afkomu og rekstraráætlun félagsins.
Á aðalfundi skal fjalla um lagabreytingar. Tillögur um lagabreytingar skulu berast stjórn viku fyrir aðalfund..

7. gr.
Félagsfundi skal halda þegar stjórn ákveður eða a.m.k. 7 félagsmenn óska þess skriflega.
Félagsfundir skulu boðaðir á sama hátt og aðalfundur.8. gr
Samþykktum þessum verður aðeins breytt á aðalfundi með atkvæðum 2/3 hluta fundarmanna.


 

Samþykkt á aðalfundi félagsins 23.  maí 2024

Siðareglur árið 2024

 

Gildi og markmið: 

  

Gildi Handleiðslufélags Íslands eru fagmennska, gæði og öryggi. Handleiðsla er gagnreynd aðferð sem forvörn gegn streitu og kulnun. Markmið handleiðslu er að efla færni handleiðsluþega og faglegt sjálfstraust, svo að hann geti nýtt hæfileika sína sem best og fundið þeim farveg í starfi. 
 

 
Trúnaður og handleiðslusamband: 

 

1. gr. 
Grundvöllur handleiðslu er virðing fyrir handleiðsluþega, manngildi hans og sérstöðu. 
 
2. gr. 
Handleiðari kemur fram af heiðarleika og virðingu gagnvart handleiðsluþega og leitast við að skapa gagnkvæmt traust. 
 
3. gr. 
Handleiðari skal gæta trúnaðar um öll þau mál sem hann verður vitni að í starfi. Undantekningu frá trúnaði má einungis gera samkvæmt lagaboði eða brýnni nauðsyn.  
 
4. gr. 
Handleiðara ber að styrkja handleiðsluþega til að takast á við sérhvert viðfangsefni sem hann kemur með í handleiðslu. 
 

5. gr. 
Handleiðari getur synjað beiðni handleiðslu t.d, vegna fjölskyldu-vináttu- samstarfs- eða annarra tengsla. 
 

6. gr. 
Ef í ljós kemur í handleiðslu, að handleiðsluþegi hafi gerst brotlegur í starfi, þá ber handleiðara skylda til að vinna úr því með handleiðsluþega til að ræða við yfirmann sinn ásamt því að tilkynna brotið til yfirmanns eða viðeigandi eftirlitsaðila.  
 
7. gr. 
Handleiðari skal ekki nýta tengsl við handleiðsluþega sjálfum sér til framdráttar. 
 

8. gr. 
Handleiðari skal ekki stofna til kynferðislegs sambands við handleiðsluþega. 
 

Ábyrgðar- og hæfnisskyldur: 

 
9.gr. 
Handleiðari ber ábyrgð á að viðhalda þekkingu sinni og færni á handleiðslu og fylgjast með nýjungum í greininni. Handleiðara er skylt að fylgja gæðaviðmiðum félagsins um sí- og endurmenntun.  
 
10. gr. 
Handleiðari vinnur að því að skapa traust almennings á handleiðslu með því að kynna hana og gera ekkert það sem getur rýrt álit á greininni. 
 
11. gr. 
Handleiðari skal ekki starfa undir áhrifum áfengis eða annarra efna, sem slæva dómgreind hans og athygli. 
 
12. gr. 
Ef handleiðari gerist brotlegur í starfi skal tilkynna brotið til Siðanefndar Handleiðslufélags Íslands með þar til gerðu eyðublaði.  

 

 

Hlutverk siðanefndar: 

 
13. gr. 
Siðanefnd gætir trúnaðar um þau mál sem til hennar berast. Undantekningu frá trúnaði má einungis gera samkvæmt lagaboði eða brýnni nauðsyn.  
 
14. gr. 

Siðanefnd tekur fyrir tilkynningar er tengjast störfum handleiðara. Brot á siðareglum geta verið tilkynnt öðrum viðeigandi eftirlitsaðilum. Brot á siðareglum getur leitt til afnáms félagsaðildar að Handleiðslufélagi Íslands. 

 

15. gr. 
Siðanefnd endurskoðar siðareglur annað hvert ár og ber saman við siðareglur Evrópusamtaka handleiðara (ANSE), ásamt því að fylgist með siðferðislegum kröfum á sviði handleiðslu.  

 

16. gr. 

Siðanefnd endurskoðar starfsreglur nefndarinnar annað hvert ár og tryggir að réttar upplýsingar um Siðareglur og Siðanefnd séu á heimasíðu Handleiðslufélags Íslands. 

 

17. gr.  

Siðanefnd stuðlar að reglulegri umræðu um Siðareglur og siðfræði handleiðara, bæði fyrir félagsfólk og almenning.  

 

 

Samþykkt á aðalfundi 23. maí 2024 

bottom of page