vnvnvbnvn
Fagmenska - gæði - öryggi
Sigurlaug Hauksdóttir
Sérfræðingur í félagsráðgjöf á heilbrigðissviði
Sigurlaug Hauksdóttir sem hefur starfað sem félagsráðgjafi frá 1981 er með handleiðsluréttindi frá Noregi. Hún er sérfræðingur í félagsráðgjöf á heilbrigðissviði og með MA-gráðu úr félagsvísindadeild HÍ. Auk þess er hún með diplóma í fræðslustarfi og stjórnun og nam sérkennslu í eitt ár.
Almenn starfsreynsla. Sigurlaug hefur lengst af unnið með sjúklingum á Landspítalanum, á Neyðarmóttöku vegna nauðgunar og við fræðslu og forvarnir hjá Embætti landlæknis. Hún hefur sinnt kynheilbrigðismálum ungs fólks, fræðslustörfum og verið stundakennari við Háskóla Íslands. Hún er núna teymisstjóri í öldrunarþjónustu hjá Reykjavíkurborg. Hún hefur jafnframt verið félagsráðgjafi við Heyrnleysingjaskólann og unnið á félagsmálastofnunum í Noregi m.a. sem félagsmálastjóri.
Störf Sigurlaugar hafa gjarnan tengst áföllum, sjúkdómum, fötlunum og erfiðum félagslegum aðstæðum. Hún hefur veitt þeim ráðgjöf, stuðning, áfalla- og kreppuvinnu, stuðlað að félagslegum tengingum og boðið upp á reglubundið hópastarf. Hún hefur einnig verið talsmaður ýmissa hópa og átt frumkvæði að nýjum úrræðum þeim til handa.
Meginmarkmið starfanna hafa gjarnan verið að stuðla að jákvæðri sjálfsmynd fólks, heilbrigðu jafnvægi í fjölskyldum og að efla lífsgæðin. Veita styrk til að takast á við lífið á sem uppbyggilegastan hátt. Þjónustan hefur verið fyrir einstaklinga á öllum aldri, sam- og gagnkynhneigða, sem og fjölskyldur og aðstandendur. Nánir samstarfsaðilar hafa verið læknar, hjúkrunarfræðingar, kennarar, leikskólakennarar, kollegar, sálfræðingar og notendur sjálfir.
Handleiðslan. Sigurlaug hefur sjálf verið í mörg ár í einstaklings- og hóphandleiðslu hjá félagsráðgjöfum og sálfræðingum jafnt í Noregi sem og á Íslandi. Hún hefur jafnframt sinnt handleiðslu annarra fagaðila. Hún lítur á handleiðslu sem nauðsynlegt tæki fyrir þá sem starfa með öðru fólki til að efla sig sem fagmann. Í handleiðslu gefst tækifæri til að ræða það sem liggur á hjarta, oft málefni sem hvíla þungt á fólki í starfi. Því gefst kostur á ígrundun, að skoða mál út frá ólíkum sjónarhornum, og leita nýrra leiða til að nálgast þau. Í umræðunni eykst gjarnan víðsýni og skilningur, og sjálfsöryggi og hæfni í starfi eflist. Trúnaðar er gætt í hvívetna.
825 5020